11.2.2025 | 23:26
Er þjóðarsátt um að fórna sjúkraflugssjúklingum?
Hafið þið tekið eftir því hvernig fólk sem er ósammála ykkur kemur sér stundum fyrir í nýrri vídd, nokkurs konar samhliða alheimi, sem útilokar rökræður úr þínum heimi. Í okkar heimi er þó samt aðeins til einn raunveruleiki og undarleg afstaða mótaðilans orsakast oftar en ekki af hann er kominn í þversögn við sjálfan sig og þarf gerviveruleika til að finna leið út.
Umræðan um Reykjavíkurflugvöll virðist nú vera komin í þetta öngstræti hjá mörgum. Það blasir við öllum að líf sjúklinga er sett í hættu. Strax nú á laugardaginn (fyrsta degi lokunar vallarins) var einum sjúklingi snúið við og augljóst að fjöldi annarra mun lenda í svipuðu næstu þrjá mánuði. Ljóst er að það eru verulegar líkur að það muni einhver láta lífið vegna þessa gjörning sem nú á sér stað.
Samtal Njáls Friðbertsson og Pawel Bartoszek á Reykjavík Síðdegis síðustu viku er lýsandi um ástandið. Þegar Njáll fór að tala um öryggi vallarinns sneri Pawel umræðuna í að ræða samninginn um flugvöllinn frekar en aðsteðjandi hættu fyrir sjúkraflug. Þegar þrýst var á afstöðu Pawels til lokunar næstsíðustu brautarinnar, kom það honum einfaldlega ekki lengur við því hann var hættur í borginni. Ekki hans vandamál. Ekki hans veruleiki. [Þeir sem vilja höggva tré eru í hinu liðinu.]
Pawel er þó ekki einn um svona nálgun. Í kosningafundum um flugmál sem ég tók þátt í (sem oddiviti Ábyrgrar Framtíðar) og benti á að fjöldi bráðasjúklinga hefðu ekki komist suður eftir lokun neyðarbrautarinnar og ný veðurgögn sýni að nothæfisstuðull vallarins stæðist ekki lengur viðmið, fékk ég þau mótsvör frá sumum að vísað var í gamlar gallaðra útreikninga sem slepptu að meta nothæfisstuðul sjúkraflugs. Nýju veðurgögnin sem sýndu að vindasamara er í dag en á góðviðristímabili gömlu útreikninganna eru orðin ógn við gerviveruleikann þeirra. Fréttir af sjúklingum sem ekki komast suður eru líka ógn við gerviveruleikann þeirra. Allt er pólitík og því má alls ekki skoða nýju gögnin og allar fréttir af hrakförum sjúklinga er bara áróður andstæðinganna!
En eru kjósendur þeirra virkilega á sama máli? Ætli allir kjósendur þeirra séu svo eldheitir flugvallarandstæðingar að þeim þykir lítið til koma að nokkrir bráðasjúklingar komist ekki á spítala eða jafnvel drepist? Það eldar enginn ommulettu án þess að brjóta nokkur egg.
Eitthvað segir mér þó að svo sé ekki. Samkennd Íslendinga með löndum sínum er sterk og fæstir Íslendingar munu líða stjórnmálamenn sem vísvitandi fórna mannslífum með þessum hætti. Eins þarf að hafa í huga að samningar ganga að jafnaði í tvær áttir. Á sama hátt og dómarar töldu á sínum tíma að lokun neyðarbrautarinnar væri samningsskuldbinding, er krafan um skógarhögg Öskjuhlíð það líka. Fátt getur breytt því að tréin verði hoggin. En þarf virkilega einhver að drepast fyrst?
Lokun næst síðustu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar skapar raunverulega hættu sem þarf raunverulega úrlausn strax.
Um bloggið
Jóhannes Loftsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 1840
- Sl. sólarhring: 1968
- Sl. viku: 4085
- Frá upphafi: 43560
Annað
- Innlit í dag: 1644
- Innlit sl. viku: 3694
- Gestir í dag: 1620
- IP-tölur í dag: 1532
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Enginn læknir rífur sjúkling í lífshættu út af sjúkrahúsi og setur í flug. Sjúklingur í lífshættu er alltaf betur kominn á sjúkrahúsi en í flugvél og læknir sem setur sjúkling í lífshættu í flugvél starfar ekki sem læknir lengi. Allt tal um flug með sjúklinga í lífshættu eru ýkjur. En sumir eru einfaldlega í þeirri vídd að telja ýkjur sínar og ímyndanir, sögur leikmanna og mat fúskara vera gjaldgeng rök og undrast að ekki skuli vera tekið mark á þeim. Sjúkraflug er bara flutningur sjúklinga milli sjúkrahúsa. Það væri eins hægt að nota sjúkrabíla ef bæjarfélögin mættu missa þá heilu dagana. Einu sjúklingarnir sem er flogið með í lífshættu fara með þyrlu beint á sjúkrahús og þurfa engan flugvöll.
Daglega eru fleiri í lífshættu vegna flugs yfir þéttbýli en verða á hundrað árum ef sjúkraflug á flugvöllinn leggst af. Lokun næst síðustu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar skapar enga raunverulega hættu fyrir sjúklinga en dregur verulega úr mikilli hættu fyrir borgarbúa. Á að meta þægindi landsbyggðarfólks meira virði en líf borgarbúa?
Espolin (IP-tala skráð) 12.2.2025 kl. 04:03
Um helmingur sjúkraflugs eru bráðatilfelli. Ekki er hægt að fá alla heilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu alltaf, því heilbrigðiskerfið er hannað miðað við að erfiðu tilfellinn þurfi að fara á landspítalann. Sjúklingur sem verður fyrir auknum skaða eftir að læknir vill ekki hleypa honum í sjúkraflug er að verða fyrir skaða vegna þessarar aðfarar að sjúkraflugi. Miðað við reynslu eins reyndasta sjúkraflugmanns landsins og þá lækkun nothæfisstuðuls flugvallarins sem nú er orðinn (kominn í 70% en á að vera 95%), munu um 7 bráðasjúklingar ekki komast suður á spítala næstu þrjá mánuðina.
En það er kannski ekki við öðru að búast að þú áttir þig ekki á því. Gervinafn sem trúir á gerviheim og óttast eðlilega staðreyndir úr raunveruleikanum.
Jóhannes Loftsson, 12.2.2025 kl. 08:42
Eru þeir ekki farnir að höggva tréin?
Dominus Sanctus., 12.2.2025 kl. 08:44
Væru góðar fréttir ef rétt reynist. Sá enga frétt um það enn.
Jóhannes Loftsson, 12.2.2025 kl. 08:55
Miðað við spána, þá er ekki gott að þurfa sjúkraflug í dag, laugardag og sunnudag. Stíf austanátt. Gjörsamlega geggjað að menn hafi gengið svo langt að loka brautinni.
Jóhannes Loftsson, 12.2.2025 kl. 09:03
Það er sannarlega skemmtileg tilviljun, að í fyrstu athugasemd við ágæta færslu Jóhannesar, sem snýst hvað helst um útúr snúninga, eða að koma málum í aðra vídd samhliða þeirri sem við á, en hér sannar Espolin nákvæmlega þá kenningu með einbeittum rökum fyrir hvað fráleitt og hættulegt það sé að rífa sjúkling upp úr öruggu sjúkrabeði, einungis til að leggja upp í óvissa hættuför á loftfari yfir þéttbýli, einungis til færslu á aðra sjúkrastofnun.
Það ergir mig satt best að segja, að þeir ágætu fyrrum frambjóðendur og þjóðfélagsgagnrýnar Jóhannes færsluhöfundur Loftsson og Arnar Þór Jónson hefðu ekki sameinað markmið sín og krafta á einum stað, í stað þess að þvinga kjósendur til að gera upp á milli þeirra, hér í óþolandi spillingunni - en það er önnur saga.
Jónatan Karlsson, 12.2.2025 kl. 09:49
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-02-11-tre-felld-i-oskjuhlid-til-ad-auka-flugoryggi-436012
Dominus Sanctus., 12.2.2025 kl. 09:52
Bara þannig gerður, sæki ekki læknisfræðilegar upplýsingar til flugmanna, bakara eða skósmiða, eins vinsælt og það er nú orðið í sumum víddum.
Espolin (IP-tala skráð) 12.2.2025 kl. 09:54
Gott að þeir eru byrjaðir. Samgöngustofa ætti samt að bregðast strax við og leyfa opnun A-V brautarinnar strax í dag vegna óhagstæðrar veðurspár.
Jóhannes Loftsson, 12.2.2025 kl. 10:43
Sumt einsog sjúkraflug passar ekki inn í samræðustjórnmálin heldur á bara að nota Trump aðferðina til að ná árangri
Trump tryggði Marc lausn á örfáum vikum og sóaði engum tíma í að grípa til afgerandi aðgerða til að koma honum heim
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/02/12/lidur_eins_og_heppnasta_manni_i_heimi/
Grímur Kjartansson, 12.2.2025 kl. 11:15
Takk fyrir þessa færslu þína Jóhannes. Þetta er góð færsla.
Og eins og Jónatan bendir á hér að ofan þá fékkstu skemmtilega sönnun á þessum orðum þínum; "fólk sem er ósammála ykkur kemur sér stundum fyrir í nýrri vídd, nokkurs konar samhliða alheimi, sem útilokar rökræður úr þínum heimi.".
Ef maður vissi ekki hve mörg líf hefðu bjargast hérna fyrir austan, þá myndi maður hlæja að þessu vanviti, en í raun er það sárgrætilegt að svona viðrinisrök sem lesa mátti hér að ofan í athugasemd, eru í raun rök og hugsun þeirra sem Reykvíkingar hafa kostið til að stjórna borginni í rúman áratug eða svo.
Átakanlegt en satt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.2.2025 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.