11.4.2025 | 07:34
Eldgosahætta á Reykjanestá og í Krísuvíkurkerfinu eykst
Eldsumbrotin á Reykjanesi eru ekkert á förum á næstunni og eftir síðustu umbrot er kvikuinnflæði í dag þrefalt hraðara en fyrir síðasta gos. Mögulega hefur losun spennu við umbrotin valdið þessu. Skammt kann því að vera í næstu umbrot.
En hvað ætli gerist svo í framhaldinu. Ætli það gæti líka gosið annars staðar? Töluvert hefur verið rætt um mögulegt kvikuinnskot að Búrfellsgjá sem gæti vaknað.
Mig langaði að skoða þetta aðeins og hlóð því niður öllum jarðskjálftum frá 2020 á Reykjanesi. Þar sem mestur áhuginn fyrir framhaldið er hvert kvikan er að leita skoðaði ég eingöngu skjálfta sem eru á 4 -25 km dýpi, sem er dýpi kvikuhólfa.
Landrekið
Fyrsta myndin hér sýnir sjálftan m.t.t. landreksins. Þessi mynd er mjög áhugaverð því hún sýnir stóru myndina af því hvernig skjálftarnir raða sér á landreks línuna.
Spennan
Til að fá enn betri hugmynd um hvað er í gangi skoðaði ég líka orkuna sem losnar úr skjálftum. Þessi orka sýnir hina raunverulega krafta sem eru í gangi og hvar þeir hafa mest losnað.
Á þessari orkumynd sést að mest orka er að losna kringum eldgosaprungurnar (Fagradalsfjall og Sundhnúkagíga). En athyglisvert er að sjá að við báða enda gosprunganna eru orkuþyrpingar í aðliggjandi eldstöðvakerfum. Mjög miklir kraftar hafa verið að losna á Krísuvíkursvæðinu auk þess sem Reykjanestá og Eldvörp hafa verið með töluverða virkni.
Þessu til viðbótar er vitað að töluverð hreyfing hefur orðið á landi við gossprungurnar. Þó að slík opnun gossprunga kunni að losa um spennu staðbundið, er þó í rauninni alltaf um einhverja færslu á spennu að ræða til nálægra sprungukerfa þar sem spenna eykst.
Aðdragandi Grindavíkurgosanna
Þegar aðdragandi Grindavíkurgosanna er skoðaður sést að lítið gerðist fyrr en í október 2023. Fjöldi skjálfta var á öllu svæðinu, en öll orkan var undir Svartsengi.
Aðdragandinn fyrir stækkun kvikuhólfs er þannig ekki langur.
Virknin 2025
Með þetta í augum er athyglisvert að skoða jarðskjálftavirknina 2025. Fyrst með mynd sem sýnir staðsetningu skjálfta:
Hér sést greinilega hvernig virknin teygist í dag eftir endilangri Sundhnúkagígasprungunni og miðað við fyrri gos þá má alveg velta fyrir sér hvort að sprungan geti farið mikið lengra en þetta áður en virknin færist í næsta sprungukerfi/eldstöðvakerfi.
og svo með orkumynd:
Á þessari orkudreifingamynd sést áberandi hvernig mikil orkulosun á sér stað í aðliggjandi eldstöðva-sprungukerfum á Reykjanesi og í Krísuvíkurkerfinu. Þetta sýnir að þar getur líka brostið á eldgos nánast hvenær sem er.
Eldgos á Reykjanestá og í Krísuvíkurkerfinu eru óumflýjanleg
Þegar jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesi er skoðað sést að í þremur síðustu eldgosatímabilum urðu gos í báðum þessum eldstöðvum. Þótt auðveldlega geti liði einhverjir áratugir á milli, þá verður að telja líklegt vegna þess hversu virknin þar er mikil í dag að slíkt muni gerast fyrr en síðar.
Báðar þessar gosstöðvar ógna mikilvægum mannvirkjum eða byggð. Það er því alveg kominn tími á að undirbúa næstu hraunvarnir. Bæði á Reykjanesi og í Hafnarfirði. Undirbúningur slíks tekur tíma og því veitir ekki af því að byrja undirbúninginn strax.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggfærslur 11. apríl 2025
Um bloggið
Jóhannes Loftsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 37
- Sl. sólarhring: 528
- Sl. viku: 4839
- Frá upphafi: 40027
Annað
- Innlit í dag: 33
- Innlit sl. viku: 4280
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar