23.2.2025 | 15:32
Var blekkingum beitt við lokun neyðarbrautarinnar?
Fyrir 10 árum síðan, áður en neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað gagnrýndi ég harðlega verklag við þá útreikninga sem stóðu að baki. (sérfræðiskýrsla um nothæfistuðul). Einn veigamesti hluti gagnrýninnar sneri að því að notað hafði verið veðurmildasta tímabil í sögu flugvallarins sem eina viðmið en öllum öðrum mælingum hent.
Fyrst þegar ég benti á þetta vísaði ég í opinber samfelld gögn veðurstofunnar fyrir veðurmælingar í Reykjavík, sem sýndi að lágmark vindhraðamælingum var á viðmiðunartímibilinu. Þessu var svarað af skýrsluhöfundum með að vísa í að óvissur væru í mælingum vegna færslu mæla, nýrri mæliaðferðum og breytingu á byggð kringum mæla.
Engin tilraun var þó gerð til að meta hvort slíkar langtímaveðursveiflur ættu sér stað, hvað þá að spyrja veðurfræðinga á veðurstofu Íslands hvort þeir vissu af slíkum vindhraðasveiflum. Rannsókn þeirra virðist þannig hafa gengið út á að leita ekki og þess í stað eingöngu leita að öðrum afsökunum en breytingum í veðurfari.
Í framhaldinu alhæfðu skýrsluhöfundar svo að engar vísbendingar væru um að niðurstöðurnar væru rangar sökum langtímasveiflu vindhraða.
Með þessari alhæfingu voru þeir þó óbeint að viðurkenna að langtímaveðursveifla gæti haft áhrif að þeirra mati ef hún væri til staðar.
Þessari alhæfingu svaraði ég stuttu seinna í annarri grein, eftir að hafa leitað frekari ítarupplýsinga hjá veðurfræðingum Veðurstofunnar. Þrír þeirra höfðu þá nýlega kynnt niðurstöðu stormrannsókna á Íslandi sem sýndu að slíkar veðursveiflur ættu sér stað. Það vildi svo til að tímabilið sem Efla (skýrsluhöfundar) notuðu var á stillasta tímanum með helmingi færri storma en á stormasamari tímum. Höfundar rannsóknarinnar voru Trausti Jónsson, Guðrún Nína Petersen og Halldór Björnsson. Þetta er mjög áhugavert og því hafa flestir veðurfræðingar á veðurstofunni án efa vitað af þessari rannsókn.
Það verður að teljast í meira lagi undarlegt að skýrsluhöfundar flugvallarskýrslunnar hafi ekki einu sinni haft fyrir því að hafa samband við neinn hjá Veðurstofu Íslands áður en þeir komu með alhæfðu með slíkum hætti um langtímasveiflur á Íslandi!
Enn undarlegra er þó að þeir hafi ekki brugðist við svargrein minni þar sem ég benti á þessar rannsóknir. Af hverju var ekki settur fyrirvari við útreikningana um að niðurstaðan tæki ekki tillit til langtímasveifla í vindhraða og væri á stillast tímabili. Það vissu allir að þessi skýrsla yrði notuð til að loka neyðarbrautinni og því er vægast sagt ámælisvert að slíkum blekkingum hafi verið beitt við kynningu hennar.
Eðlileg vinnubrögð hefðu verið að viðurkenna takmarkanir útreikninganna og árétta að nýlegar veðurrannsóknir bentu til að nothæfisstuðullinn væir ofmetinn í útreikningunum.
Þetta var ekki gert. Í stað þess, var málið þagað niður og skýrsluhöfundar hættu að svara greinum sem ég skrifaði. Þar við sat. Þegar réttað var í flugvallarmálinu voru þessi skýrsla notuð sem sönnunargagn til að réttlæta lokun brautarinnar án þess að minnast á þennan ágalla og að skýrsluhöfundar væru upplýstir um rannsóknir sem sýndu að til staða væru langtíma veðursveiflur sem myndu orsaka að flugvöllurinn myndi að likindum ekki standast nothæfsistuðulkröfur næstu áratugi. (þ.e.a.s. ekki fyrr en næsta stillutímabil hæfist)
Af þessari ástæðu eru nýlegir útreikningar mínir á nothæfisstuðlinum sem ég birti í grein með nýrri veðurgögnum mjög áhugaverðir. Þetta nýlegra tímabil er nokkru vindasamara en tímabilið sem lá að baki skýrslunni sem notuð var til að réttlæta lokun neyðarbrautarinnar. Á þessu nýlegra veðurtímabili er Reykjavíkurflugvöllur fallinn. Þetta þýðir að Reykjavikurflugvöllur hefur aldrei staðist lágmarksviðmið ICAO síðan neyðarbrautinni var lokað!
Læt hér fylgja með greinina sem birtist í morgunblaðinu 11. ágúst 2015.
==================================================
Fáu svarað um Reykjavíkurflugvöll
Eftir Jóhannes Loftsson: "Veðurfar á Íslandi er áhugavert rannsóknarefni og finna má marga aðra langtímaáhrifaþætti sem geta vel haft áhrif á nothæfisstuðulinn."
Þann 22. júlí birti Egill Þorsteins hjá verkfræðistofunni Eflu svar í Morgunblaðinu við þeirri gagnrýni minni að óeðlilegt hefði verið að byggja mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar nær eingöngu á afar veðurmildu tímabili og taka ekki tillit til mögulegra langtímaveðursveifla. Svarið byggir þó ekki á ýtarlegri veðurfarsgreiningu, heldur eru rýnd mæligögn úr veðurstöð 1 við Bústaðaveg, sem eru gögn sem ég vísaði í fyrst eingöngu til viðmiðunar þegar ég var að reyna að vekja athygli á þessum mögulega vanda.
Ótrúverðugur rökstuðningur
Í umfjölluninni um þessi viðmiðunargögn eru dregin fram ýmis mælitæknileg rök fyrir því að vindmælingar í veðurstöð 1 hafi lækkað gegnum tíðina. Stöðin var flutt til innan Reykjavíkur og var í upphafi við Reykjavíkurflugvöll (1949-1973) en er nú við Bústaðaveg. Stór lækkun í vindhraðamælingum árið 2000 er skýrð með því að þá hafi verið skipt um veðurmæli. Í framhaldi af því að hafa bent á þessa skekkjuvalda fer röksemdafærslan þó að verða nokkuð undarleg. Meðalvindur mælinganna sem Efla notaði við útreikninga á nothæfisstuðlinum er borinn saman við meðalvind langtímavindmælinga úr veðurstöð 1, án þess að taka tillit til mæliskekkjanna sem verið var að benda á. Í ljósi þess hversu litlu munar á þessu meðaltali ályktar greinahöfundur síðan að engar vísbendingar séu um ótrúverðugar niðurstöður sökum langtímasveiflu vindhraða.
Augljóst er að ef stór mæliskekkja er í mælingum má ekki horfa framhjá villunni með þessum hætti og þykjast ekki þurfa að taka tillit til villunnar þegar það hentar. Í ljósi þess hversu rík skylda hvílir á sérfræðingum að segja rétt frá dregur þessi málatilbúnaður í raun úr trúverðugleika skýrsluhöfundar sem óháðs álitsgjafa.
Minni gæði eldri mælinga eru heldur engin rök fyrir því að langtíma veðursveiflur séu ekki til staðar. Leggja þarf í töluverða vinnu við að skoða samanburðarhæf eldri mæligögn áður en hægt er að draga slíkar ályktanir.
Ekkert má út af bera
Nothæfisstuðullinn sem Efla fær út fyrir tveggja brauta Reykjavíkurflugvöll er 95,2%-95,9% að teknu tilliti til skyggnis og skýjafars. Ekki munar nema um 0,2% að flugvöllurinn standist ekki 95% kröfu ICAO og því er ekki að sjá að nokkurt svigrúm sé til neinna ágiskana um langtímaveðurfarsbreytingar.
Þann tíma sem veðurstöð 1 var á Reykjavíkurflugvelli(1949-1973) mældist meðalvindur 5,91 m/s (miðað við grófa leiðréttingu sem Efla gaf upp). Þetta er um 11,5% meiri meðalvindur en er að mælast á mildasta veðurtímabilinu sem notað var við mat á nothæfisstuðli, sem er meira en nóg til að flugvöllurinn standist ekki kröfur ICAO.
Í ljósi mælióvissu í þessum eldri mælingum er samt erfitt að draga allt of miklar ályktanir út frá þessum samanburði og því er nauðsynlegt að horfa til ýtarlegri greininga sem hafa verið gerðar á langtímavindafari hérlendis.
Rannsóknir sýna langtímabreytingar í vindafari
Á ráðstefnu í Vín 12.-17. apríl á þessu ári kynntu Trausti Jónsson, Guðrún Nína Petersen og Halldór Björnsson hjá Veðurstofu Íslands rannsóknir sínar á áratugabreytileika illviðra. Rannsóknin byggði á talningu óveðursdaga á árabilinu 1949-2014, þar sem óveðursdagur var skilgreindur út frá þremur mismunandi óveðursvísum. Mjög skýr merki um áratugasveiflu í tíðni óveðra komu fram í óveðurstalningu allra óveðursvísanna. Á myndinni er sýnd ein slík talning miðað við einn af óveðursvísunum.
Þar sést greinilega hversu óheppileg veðurtímabilin sem notuð voru við mat á nothæfisstuðli voru, því að þau spanna aðeins stilltasta hluta veðursveiflunnar. Til að fá raunhæfari mynd þarf augljóslega að nota veðurgögn sem spanna heila veðursveiflu. Ef sex árum er bætt við tímabilið til að mælingarnar spanni heila veðursveiflu hækkar meðaltíðni óveðra á öllu tímabilinu um 23%. Þetta segir heldur ekki alla söguna, því á vindasömustu fyrstu sjö árum sveiflunnar er meðaltíðni óveðursdaga um tvöfalt hærri en meðaltíðni áranna eftir 1995.
Ljóst er að viðvarandi slíkar aðstæður geta skapað mjög slæmt ástand og hugsanlega er það til marks um það sem koma skal að fyrstu fimm mánuði þessa árs voru 6,5% lendinga sjúkraflugs
Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.á neyðarbrautinni, sem er veruleg aukning frá þeim 1,4% sem mældust á tímabili frá 2011-2014.
Veðurfar á Íslandi er áhugavert rannsóknarefni og finna má marga aðra langtímaáhrifaþætti sem geta vel haft áhrif á nothæfisstuðulinn. Í rannsókn Trausta o.fl. komu t.d. einnig fram vísbendingar um að langtímasveiflur væru í tíðni vindátta, auk þess sem tveir af þremur óveðursvísum sýndu merki lengri langtímabreytingar þar sem síðustu 19 ár eru áberandi lengsta og stilltasta rólega tímabil frá 1949.
Við þetta bætist að langtímahitabreyting tengd sólvirkni og sveiflum í sjávarstraumum gæti á næstu árum valdið lækkandi hitafari, sem hefur áhrif á flugfærðarþætti eins og ísingu, snjófærð og skyggni.
Engum athugasemdum svarað
Eftir situr að þrátt fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem lokun neyðarbrautarinnar getur haft hefur nær engum af athugasemdum sem fram hafa komið verið svarað af þar til bærum aðilum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 23. febrúar 2025
Um bloggið
Jóhannes Loftsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.2.): 25
- Sl. sólarhring: 703
- Sl. viku: 2850
- Frá upphafi: 20604
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 2595
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar