Einkarekin Reykjavík leysir allt

Fyrir liðlegum sjö árum kynnti ég fyrst hugmyndir um göng í Reykjavík sem hefðu getað leyst allan vanda Reykjavíkur. Lóðavandann, húsnæðisvandann, umferðarvandann og dregið úr fátækt. Arðsemin af nýju landi sem yrði aðgengilegt með göngunum er það mikil að göngin hefðu verið ókeypis. 

Ef hlustað hefði verið á þessar hugmyndir þá, hefðu einhver göng þegar verið komin og fasteignaverð byrjað að lækka samhliða hraðri uppbyggingu háhýsabyggð i Viðey og rólegri einbýlishúsahverfum á Kjalarnesi, Geldingarnesi og víðar.  Ódýr húsnæði fyrir alla eins og tíðkaðist fyrir aldamótin yfirð aftur veruleiki og Sundabraut væri óþörf.

Því miður var ekki hægt að snúa vitleysislestinni.  Vegna Borgarlínublætisins hefur bara verið byggt á dýrstu svæðum síðan greinin var skrifuð og ekkert fær stöðvað hina vanhugsuðu Sundabraut og rándýra sæbrautarstokk. Engum skal koma á óvart að sett verði upp gjaldtökuhlið í ártúnsbrekku til að fjármagna þessa sóun vegafés.

 

…. Hér greinin sem birtist í mogganum 29. mars 2018.

=============================================

mynd_einkarekin_reykjavík

Einkarekin Reykjavík

Eftir Jóhannes Loftsson: "Leyfum einkaframtakinu að leysa húsnæðis- og samgönguvandann og byggjum Viðey."

Aðalvandamálið við þéttingu byggðar er plássleysið. Uppbygging verður flókin og dýr og innviðir yfirfyllast. Hið háa fasteignaverð sem þéttingunni fylgir eykur hins vegar tekjur borgarinnar, sem fyrir vikið hefur fjárhagslegan hag af því að nýta einokunaraðstöðu sína til að þvinga óeðlilega þéttingu byggðar.

Í samgöngumálum nýtir síðan ríkið einokunaraðstöðu sína til að rukka ökumenn um þrefalt meira fé en notað er í vegakerfið. Þar af fer megnið í lítið notaðar framkvæmdir á landsbyggðinni, sem borga sig aldrei upp. En meira að segja þó að fólk í borginni væri reiðubúið til að borga fyrir að komast hraðar milli staða, þá fær það það ekki, því það er enginn annar sem má mæta þörfinni.

En hvað er þá til ráða? Það greinilega bráðvantar samkeppni bæði í samgöngum og á húsnæðismarkaði. Lausnina gæti verið að finna í Hvalfirði, þar sem nú er að ljúka áhugaverðri tilraun sem tókst vonum framar. Hvalfjarðargöng voru einkaframkvæmd aðila sem höfðu mikinn hag af bættum samgöngum og fjármögnuðu framkvæmdina á eigin ábyrgð byggt á væntingum um tekjur af vegtollum. Niðurstaðan varð ein hagkvæmasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar, sem gjörbreytti öllu Vesturlandi með því að færa það nær Reykjavík.

Í Reykjavík eru á margan hátt mun betri markaðslegar aðstæður fyrir slíkar einkaframkvæmdir því þar getur verðmætaaukning landsins ein sér oft auðveldlega fjármagnað alla framkvæmdina. En til að það skili sér þarf að byggja hverfin hratt. Slíkri hraðri uppbyggingu fylgir áhætta sem óæskilegt er að sveitarfélög taki á sig. Hægt væri að minnka þá áhættu með því að þróunarfélagið tæki sjálft yfir hluta af skuldbindingum borgarinnar, gegn niðurfellingu viðkomandi gjalda.

Uppbygging Viðeyjar er dæmi um verkefni sem gæti reynst afar hagkvæmt að fara í. Opnast mundi á víðáttumikið landsvæði á besta stað og hluti Sundabrautar yrði óþarfur án þess að skattgreiðendur þyrftu að borga krónu.

Viðeyjarbyggð

dag eru á Viðey 170 hektarar af verðlausu landi. Með landtengingu um göng frá Laugarnesi og uppbyggingu sem því fylgir mun þetta land verða gríðarverðmætt. Útgraftarefnið sem kæmi úr göngunum og uppbyggingunni á svæðinu væri síðan hægt að nýta til að stækka flatarmál eyjunnar um 10-20 hektara til viðbótar í grynningum við hana. Hér er um mikið landflæmi að ræða, sem til samanburðar er jafnstórt gömlu Reykjavík innan gömlu Hringbrautar, að Örfirisey og Tjörninni undanskilinni.

Ef þróunarfyrirtæki tæki fimm þúsund krónur á fermetra lands nægði það fyrir slíkum göngum auk vegtengingar yfir grynningar til Gufuness. Þetta er afar lágt verð miðað við gangverð lóða í dag.

Byggðin í Viðey er þar að auki mun nær miðbænum en flest þéttingarhverfi sem nú er verið að byggja. Það tekur t.d. ekki nema um fjórar mínútur að keyra alla leið að Hörpu, og því má segja að hér sé í raun um þéttingu byggðar að ræða. Munurinn er þó sá að Viðey er mjög opið og auðbyggjanlegt landsvæði, með mikla náttúrufegurð og laust við umferðarmengunina og skarkalann sem fylgir öðrum þéttingarsvæðum.

Einn kostur við að einkaaðili fjárfesti háar upphæðir í rándýrri vegtenginu eins og til Viðeyjar er að það setur pressu á hann að koma landinu í verð sem fyrst. Fyrir vikið hentar svæðið vel til að vinna hratt á núverandi húsnæðisvanda í samkeppni við önnur svæði. Annar meiriháttar kostur er síðan að með ódýrri landtengingu í Gufunes verður 1. áfangi Sundabrautar óþarfur, með tuga milljarða sparnaði fyrir skattgreiðendur.

Einkaframkvæmdir eru framtíðin

Þó að Viðey sé líklega langhagkvæmasta framkvæmd sem hægt er að ráðast í í Reykjavík gætu margar aðrar framkvæmdir í borginni einnig reynst mjög arðsamar. T.d. mætti byggja Kollafjarðargöng með því að framlengja Viðeyjargöngin alla leiðina til Brimness. Tenging við þjóðveg myndi styttast um 16,5 km og allt Kjalarnes, sem er helmingurinn af öllu landi Reykjavíkur, mun opnast fyrir uppbyggingu. Aðeins níu mínútna akstur um göng mun þá skilja hið nýja byggingarland frá restinni af Reykjavík, og því mun lóðaskortur í Reykjavík líklega heyra sögunni til fram á næstu öld. Einnig mætti tengja Þerney, Álfsnes, Geldinganes og Engey gegnum göng og byggja Skerjafjarðarbraut. Í öllum tilfellum er um afar vænlega fjárfestingarkosti að ræða, sem myndu ekki kosta skattgreiðendur krónu.

Húsnæðisokur og ónýtir vegir eru ekki náttúrulögmál og því löngu orðið tímabært að ríki og borg losi tökin og láti af einokun í vegagerð og á húsnæðismarkaði. Barátta Íslands gegn einokun hófst einmitt í Viðey, og því er vart hægt að hugsa sér betri stað til að byrja byltinguna.

Höfundur er formaður Frjálshyggjufélagsins.

einkarekinreykjavík


Drukkinn sjómaður óskar eftir sparnaðarráðum. (Reykjavíkurborg)

1. apríl kallaði borgarstórnin eftir að íbúar og starfsmenn sendu sparnaðartillögur til borgarinnar. Eftir mestu fjármálaóstjórn í sögu borgarinnar sem hefur gert þetta stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins nánast gjaldþrota, á almenningur að trúa því að þetta sama fólk sé ekki með aprílgabb og ætli sér allt í einu núna að byrja að spara.

En í anda samvinnu og skynsemissjónarmiða langar mig þó að koma með nokkrar tillögur:

  1. Ekki kaupa 1000 strá á 1000 krónur stykkið.  Það er nóg af stráum á Íslandi.
  2. Ekki breyta bragga í lúxusveitingahús.
  3. Ekki byggja fleiri mathallir, sérstaklega ef þú nennir ekki að hanna þær sem slíkar áður en þú byrjar, því kostnaðurinn gæti aftur þrefaldast.
  4. Ekki byggja rándýra sorpverksmiðju sem framleiðir örplastmengaðan jarðveg sem enginn vill
  5. Þegar þú kostnaðarmetur rándýra sorpverksmiðju, er verra að gleyma að telja kostnaðinn af vélbúnaðinum með.  (1-2milljarða framúrkeyrsla)
  6. Þegar þú kostnaðarmetur nýja skóla, þá er ekki gott að gleyma öllu inni í skólanum.  (1milljarður + framúrkeyrsa)
  7. Pálmatré þrífast illa á Íslandi.
  8. Ekki byggja fuglahús úti á miðri götu. (Hofsvallargata)
  9. 10 milljarðar fyrir göngubrú er hár kostnaður.
  10. Ekki byggja leikskóla sem kostar 25 milljónir á barn.
  11. Ekki byggja leikskóla með torfþaki. Enn verra er svo ef þakið er ekki burðarþolshannað fyrir torfið.
  12. Ef fyrirtæki eru rekin með bullandi tapi, þá er það ekki merki um að viðskiptahugmyndin sé góð.  Tíföldun útgjalda til strætó gegnum borgarlínu er ekki að fara að skila neinum neitt, nema fasteigabröskurum.
  13. Það á ekki að fjármagna sveitarfélög með lántökum byggt á fasteignabraski Félagsbústaða.
  14. Ekki fara í tilraunaverkefni við að dæla eiturgasi undir nágrannasveitarfélög.
  15. Ekki fara í vindmillutilraunaverkefni á landi nágrannasveitarfélaga (Mosfellsheiði), virkjaðu frekar meiri jarðvarma.  Nóg er til.
  16. Starfsmenn sveitarfélaga sem vilja spara eiga ekki að vinna styttri vinnutíma en almenningur á sömu launum.

... læt þetta nægja í bili,

 


Nær kvikuinnskotið undir “Hvassahraunsflugvöll”?

Í október síðastliðnum kom út sérfræðiskýrsla um nýjan flugvöll við Hvassahraun.  Í skýrslunni sagði að líkur á gosupptökum innan svæðisins væri hverfandi.  Niðurstaða skýrsluhöfunda var að þeir ættu að fá meira fé til að rannsaka flugvallarkostinn betur.  Það fylgdi þó ekki sögunni í upphafi að eldgosahættan byggði á mati frá því ÁÐUR en eldsumbrot hófust á Reykjanesi!!!

Í jarðhræringunum vegna 1. apríl eldgosins náði kvikuhlaupið Sundhnúkagíga-sprunguna norðar en nokkru sinni fyrr.  Eins sést að veruleg skjálftvirkni er einnig 3km austan við norður-hluta sprungunnar.    Þessi skjálftar eru mikið til á kvikuinnskotsdýpinu 4-5km.   Athygli vekur að þetta austara svæði liggur ekki nema um 500 metra frá fyrirhugaðri flugbraut og nyrðri endi Sundhnúkagígaskjálftanna eru ekki nema 3 km frá fyrirhugaðri flugbraut í Hvassahrauni.

Teiknað flugvallastæðið eins og það er kynnt í Rögnuskýrslu inna á jarðskjálftakortið á vafra í m.v. virkni síðustu 18 klukkustundir.

 

hvassarhraun1

Gróf staðsetning hvassahraunsflugvallar m.v. eldsumbrotaskjálftana

 

hvassarhraun2

Nákvæmari staðseting Hvassahraunsflugvalla m.v. eldsumbrotsskjálftana.(tekið af vafri.is)

 

Í samkomulaginu um Reykjavíkurflugvöll skrifuðu báðir aðilar upp á það að innanlandsflug yrði ávalt staðsett á höfuborgarsvæðinu.  Niðurstaða Rögnunefndarinnar var að mæla með Hvassahrauni, og tilkynnt var samtímis að flugvallarkostir væru fullkannaðir með þeirri skýrslu.  Eitt af skilyrðum samkomulagsins um Reykjavíkurflugvöll var einmitt að flugvallarkostirnir yrðu fullkannaðir sem varð því um leið ein forsenda fyrir að halda mætti áfram með lokun neyðarbrautarinnar.

Augljóst er að þessi forsenda er brostinn.  Það byggir enginn heilvita maður nýjann mörg hundruð milljarða flugvöll ofan á virku eldfjalli!


Tími Marshallaðstoðarinnar er liðinn.

Margt bendir til að tollastríð gæti skollið á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.  Ef ef svo færi gæti ESB farið mun verr út úr því en margur ætlar.

Þetta sést greinilega þegar viðskiptajafnvægi milli ESB og Bandaríkjanna er skoðað.  2024 fluttu Bandaríkin inn 40% meira en þau seldu til ESB, eða 200 milljörðum. Þetta segir ekki alla söguna því 20-30% af innflutningi ESB var gas til orkuframleiðslu og  innflutt framleiðsla frá Bandaríkjunum var hverfandi miðað sambærilegan útfluting ESB til Bandaríkjanna. ESB er nefnilega fyrst og fremst tollabandalag og tollar og alls konar reglugerðarinnflutningshindranir hafa ójafnað leikinn Bandaríkjunum í óhag. Leiðin fyrir bandarísk fyrirtæki að selja sína vöru í ESB felst þannig fyrst og fremst í að flytja verskmiðjuna til ESB.

tradeeuus

 

trade2024

Í tollastríði mundi þetta snúast við og evrópsku fyrirtækin yrðu að flytja framleiðslueiningar til Bandaríkjanna til að vera áfram á þeim markaði. Tollastríð sem mundi stöðva gasinnflutning frá Bandaríkjunum eru heldur ekki að fara gera Evrópubúum  neinn greiða.  Orkukrísan þar mundi bara dýpka.

Leiðin fyrir ESB til að komast hjá slíkum óförum felst þannig ekki í að standa í hótunum, heldur reyna að vinna með bandamönnum sínum og fella niður tolla og aðlaga flókið regluverk til að auðvelda viðskipti með bandaríska vöru svo viðskiptajafnvægi náist.

Frá því eftir seinni heimstyrjöld hafa Bandaríkjamenn einir borið meginþorrann af kostnaði við NATÓ. Ef bandaríkjamenn hefði borgað álíka hlutfall GDP of ESB lönd hefðu útgjöld þeirra verið um 500 milljörðum minni.  Alls eru þetta orðið því 700 milljarða ójafnvægi í útgjöldum.

Eftir seinni heimstyrjöldina studdu Bandaríkjamenn margar vinaþjóðir til að jafna sig eftir stríðið og hjálpa þeim úr fátækt, með svokallaðri Marshall aðstoð. En nú eru 80 ár liðin frá því stríðinu lauk og löngu orðið tímabært að slíkum gjafastuðningi sé hætt.

Íslensk yfirvöld ættu líka að huga að því að lækka innflutningstolla frá Bandaríkjunum.


« Fyrri síða

Um bloggið

Jóhannes Loftsson

Höfundur

Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson

Höfundur er verkfræðingur, frumkvöðull, formaður Frjálshyggjufélagsins og Ábyrgrar Framtíðar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • aqmael
  • aqtafla4
  • aqtafla3
  • aqtafla2
  • aqtafla1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 403
  • Sl. viku: 3161
  • Frá upphafi: 76736

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2870
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband